Lilja Mósesdóttir ætlar ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi setu á Alþingi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lilju þar sem hún segir það aldrei hafa verið ætlun sína að gerast stjórnmálamaður.

„Því ber ekki að leyna að ég hef orðið fyrir vonbrigðum með skort á umburðarlyndi á þingi og í pólitískri umræðu gagnvart óhefðbundnum skoðunum og faglegum lausnum á fordæmalausum efnahagsvanda í kjölfar hrunsins,“ segir Lilja í tilkynningunni.

Hún segist ætla að snúa sér að sérfræðistörfum innan eða utan háskólageirans að loknum alþingiskosningum. „Á þeim vettvangi mun fagþekking mín nýtast betur en í umhverfi þar sem tillögur fá ekki faglega eða efnislega meðferð ógni þær á einhvern hátt flokkspólitískum hagsmunum.“