Linda Blöndal hefur gengið til liðs við Hringbraut en hún mun sinna dagskrárgerð í sjónvarpi í samstarfi við Sigurjón M. Egilsson og Sigmund Erni Rúnarsson. Linda starfaði lengi hjá Ríkisútvarpinu við dagskrárgerð og fréttamennsku. Þá starfaði hún sem fréttamaður á Stöð 2, þar til hún fór í mastersnám í nýsköpunarfræðum.

,,Það er mikill fengur í því að fá jafn öfluga konu og Lindu til okkar því sjaldan ef nokkurn tíma hefur þörfin á innlendri umræðu verið jafn mikilvæg. Lindu mun bera víða við í dagskrárgerð sjónvarps Hringbrautar,” segir Sigurjón M. Egilsson, ritstjóri Hringbrautar.

Með aukinni innlendri dagskrá í sjónvarpi, hefur vefsíðunni hringbraut.is verið breytt í kynningarsíðu fyrir ljósvakamiðla og starf fréttastjórans, Björns Þorlákssonar, verið lagt niður. Björn mun sinna sérverkefnum fyrir sjónvarpið í sumar en í vetur sem leið, þáttastýrði hann fréttaskýringarþættinum Kvikunni sem sýndur var á Hringbraut.