Samningur Bergs-Hugins, Útgerðarfélags Akureyrar, Gjögurs og Skinney-Þingness við norska skipasmíðafyrirtækið Vard Aukra um smíði á sjö ísfisktogurum hljóðar samtals upp á 700 milljónir norskra króna, 8.765 milljónir íslenskra króna. Skipin eru öll nákvæmlega eins og kostar því hvert þeirra 1.252 milljónir króna en þá á eftir að fjárfesta í margvíslegum öðrum búnaði. Lausleg áætlun gerir ráð fyrir að búnaður á vinnsludekk skipanna muni kosta um 150 milljónir króna til viðbótar, en útfærslur hverrar útgerðar fyrir sig, og þá á milli skipanna sjö, gætu verið mismunandi. Heildarfjárfestingin losar því rétt um tæpa tíu milljarða þegar allt er talið.

Ásgeir Gunnarsson, framkvæmdastjóri veiða og vinnslu hjá Skinney-Þinganes, sem fær tvö þessara skipa, segir ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvaða skip þau leysi af hólmi í flota fyrirtækisins. Skinney-Þinganes gerir út átta skip, þar af fimm bolfiskskip og eitt þeirra, Steinunni SF, er eingöngu gert út á togveiðar. Líklegt má því telja að Ingunn víki en Ásgeir segir að samhliða nýju skipunum verði flotinn endurskipulagður.

„Útgerðarmynstrið á nýju skipunum verður svipuð og það hefur verið á Steinunni. Önnur skip hafa verið í blandaðri veiði, bæði snurvoð og humarveiðum. En nýju skipin verða útbúin á hefðbundnar togveiðar,“ segir Ásgeir.

Komu seint inn í samstarfið
Skipin eru 29 metrar á lengd og 12 metrar á breidd og því í næsta flokki fyrir neðan nýsmíðarnar sem hafa verið að koma til landsins undanfarin misseri. Ástæðan fyrir þessu eru lög um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands þar sem segir að fiskiskip styttri en 29 metrar, enda séu þau með lægri aflvísa en 1.600, falli í flokk 3 og megi veiða upp að þremur sjómílum frá landi.

Ásgeir segir að þannig hafi lögin í raun ákvarðað stærð skipsins en að öðrum kosti hefði að öllu líkindum lengd skipsins verið höfð meiri.

Aukin ferskfiskvinnsla
„En skipin eru reyndar breið miðað við lengd. Það eykur burðargetuna og pláss á millidekki sem bætir alla aflameðferð, m.a. með tilliti til blæðingar og kælingar. Það er stóra málið í dag og við teljum okkur ná árangri á því sviði með breiddinni. Það verður horft til íslenskra tæknifyrirtækja hvað varðar búnað á millidekkið. Við erum reyndar ekki komnir svo langt að geta fullyrt hvort farið verði út í ofurkælingu. Við komum mjög seint inn í þetta samstarf. Hin fyrirtækin þrjú höfðu höfðu haft þetta á prjónunum talsvert lengur en við.“

Skinney-Þinganes fær tvö síðustu skipin í raðsmíðaverkefninu og verða þau afhent í október og nóvember 2019. Fyrstu skipin verða hins vegar afhent Berg-Huginn í mars og maí 2019.

Ásgeir segir að með tilkomu nýju skipanna breytist áherslur hjá Skinney-Þinganes. Dregið verði úr saltfiskvinnslu og meiri áhersla lögð á hefðbundna bolfiskfiskvinnslu. Þannig verði hlutur ferskfiskvinnslu aukinn í flakavinnslu fyrirtækisins í Þorlákshöfn og á Hornafirði. Ásgeir segir tilhneiginguna almennt þá að sjávarútvegsfyrirtæki stefni lengra inn á neytendamarkaðinn og nær neytandanum en áður hefur verið