*

sunnudagur, 18. nóvember 2018
Erlent 15. ágúst 2018 12:12

Líran styrkist vegna hertra reglna

Tyrkneska líran hefur styrkst um 3,6% í dag eftir að yfirvöld hertu reglur um gjaldeyrisviðskipti og neytendalán.

Ritstjórn
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
european pressphoto agency

Tyrknesk yfirvöld hafa hert reglur á fjármálamarkaði til að reyna að koma í veg fyrir skortsölu gjaldmiðilsins, lírunnar, sem hefur verið í frjálsu falli nýverið, en hún hefur veikst um fimmtung gagnvart Bandaríkjadal það sem af er ágústmánuði.

Líran tók kipp og hefur styrkst um 3,6% það sem af er degi, eftir að bankayfirvöld tyrklands breyttu reglum um gjaldeyrisskiptasamninga og framvirka samninga með gjaldmiðla, en breytingarnar hefta getu tyrkneskra banka til að útvega erlendum fjármálastofnunum lírur.

„Þeir hafa í raun hækkað vexti [lírunnar] erlendis, án þess að hækka þá heima fyrir. Geta tyrkneskra banka til að útvega markaðnum lírur hefur helmingast.“ sagði Peter Kisler, sem rekur nýmarkaðssjóð í samtali við Financial Times.

Samhliða hertum reglum um gjaldeyrisviðskipti kynntu yfirvöld aðgerðir til að halda aftur af einkaneyslu, sem hefur ýtt undir mikla verðbólgu og viðskiptahalla. Hámarkslánstími neyslulána var styttur, og takmarkanir settar á raðgreiðslur kreditkorta.

Þá voru tollar á innflutning bandarískra bíla, áfengis og sígarettna hækkaðir, en ein af meginástæðum þess að fjárfestar hafa lítið traust á tyrkneska hagkerfinu eru útistöður yfirvalda við Bandaríkin vegna handtöku bandarísks prests.

Stikkorð: Tyrkland Erdogan líran