Úthlutunarnefnd listamannalauna hefur úthlutað 1.600 mánaðarlaunum til listamanna fyrir þetta ári. Alls bárust 733 umsóknir og fengu 245 einstaklingar og hópar styrki. Mánaðarlaun þeirra sem hlutu úthlutun nema 310.913 krónum. Úthlutað er til allt að tveggja ára.

Á meðal þeirra sem falla undir úthlutun eru hönnuðir, myndlistarfólk, rithöfundar, sviðslistafólk, tónlistarflytjendur og tónskáld.

Á meðal einstakra listamanna fá myndlistarmennirnir Christoph Buchel, Kristín G. Gunnlaugsdóttir og Ólöf Nordal úthlutun til 24 mánaða, rithöfundarnir Eiríkur Örn Norðdahl og Guðrún Eva Mínervudóttir úthlutun til jafn langs tíma og sviðslistahópurinn Galdur Productions sf úthlutun úr launasjóði sviðslistahópa til 22 mánaða.

Nánar má skoða lista yfir úthlutun á vef Rannís .

Leiðrétting

Í tilkynningu Rannís í gær sagði að Örn Elías Guðmundsson, betur þekktur sem Mugison, hafi fengið úthlutað úr tveimur sjóðum til samtals níu mánaða. Það mun ekki vera rétt. Samkvæmt tilkynningu sem send var út í dag segir að Örn Elías og Halldór Snorri Bragason hafi fengið úthlutað 6 mánaða launum úr launasjóði tónlistarflytjenda auk 3 mánaða launa úr launasjóði tónskálda. Hið rétta er að Örn Elías og Halldór fengu úthlutað 3 mánaða launum úr launasjóði tónskálda.