Aðeins 250 þúsund danskar krónur, um 4,6 milljónir íslenskar, auk bifreiðar, eru til skiptanna í þrotabúi Primera Air, upp í kröfur að andvirði 16,7 milljarða íslenskra króna.

Skiptastjóra búsins, Morten Hans Jakobsen, er í frétt Jyllandsposten um málið sagt hafa brugðið nokkuð í brún þegar hann komst að því hve lítið væri í búinu, en honum hafði verið sagt að til staðar væru 5,1 milljón danskar krónur, auk búnaðar að andvirði um 1,5 milljón danskra, samanlagt um 120 milljónir íslenskar.

Jakobsen segist furðu lostinn yfir hvarfinu, og segist munu rannsaka hvort einhverjar kröfur hafi verið greiddar á undan öðrum. Eitthvað hljóti að hafa orðið af fjármununum.