Of fáar íbúðir eru í byggingu á höfuðborgarsvæðinu miðað við meðal árlega eftirspurnaraukningu. Er þetta meðal þess sem fram kom í máli Jóns Bjarna Gunnarssonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, á ráðstefnu SI og Landsbankans í síðustu viku.

Samtök iðnaðarins hafa staðið fyrir talningu íbúða í byggingu og ná tölurnar allt aftur til ársins 2007. Eru íbúðir flokkaðar í tvennt, annars vegar íbúðir frá sökkli að fokheldu og svo þær sem eru fokheldar og lengra komnar. Í dag eru 2.556 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu.

Í máli Jóns Bjarna kom fram að talið sé að það eigi að byggja um það bil 1.800 íbúðir á ári að meðaltali og er þá ekki tekið tillit til uppsafnaðs vanda og íbúða sem hafa farið í skammtímaleigu. Meðal byggingartími er eitt og hálft til tvö ár og því ættu að vera a.m.k. 3.000-3.500 íbúðir í byggingu á hverjum tíma til að skila af sér 1.800 fullbúnum íbúðum á ári. Ljóst er af talningu SI að töluvert er í að þetta takmark náist.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .