Litlar líkur eru á því að loðnukvóti verði gefinn út í vetur að óbreyttu. Loðnumælingu er lokið og er von á niðurstöðum frá Hafrannsóknastofnun eftir nokkra daga. Talsmenn stofnunarinnar hafa ekki viljað gefa neinar upplýsingar fyrr en niðurstöður liggja fyrir, en samkvæmt heimildum Fiskifrétta innan úr röðum útgerðarinnar fannst mjög lítið af loðnu í leiðangrinum og hvergi nóg til þess að forsenda sé fyrir útgáfu loðnukvóta. Er það í samræmi við mælingar stofnunarinnar síðastliðið haust.

Rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson er komið til Reykjavíkur og Árni Friðriksson kemur í kvöld. Auk þeirra tók grænlenska skipið Polar Amaroq þátt í mælingunni og er það nú á leið til Neskaupstaðar.