Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vinnur nú að skýrslu sem byggir á rannsókn sem stofnunin hefur unnið. Rannsóknin snýr að samspili menntunar og atvinnugreina en samkvæmt henni er það afar misjafnt eftir atvinnugreinum. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Hlutfall fólks með háskólamenntun hefur hækkað og er nú komið yfir 40%. Það nálgast nú það hlutfall sem þekkist á Norðurlöndunum.

Sigurður Björnsson, hagfræðingur hjá Hagfræðistofnun kynnti nokkrar niðurstöður rannsóknarinnar á ársfundi Vinnumálastofnunar í síðustu viku.

Tímakaupið er afar mismunandi eftir störfum og er tímakaup sérfræðinga í kennslu og uppeldisfræðum mun lægra en hjá öðrum starfsstéttum eða um 3.306 krónur að jafnaði. Hæst tímakaup hafa þeir sem menntaðir eru í eðlis-, verk- og stærðfræði.

Meðalaldur í mörgum starfstéttum hefur hækkað en þó hefur hann lækkað í greinum tengdum ferðaþjónustu og náttúruvísindum.