Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra segir í samtali við Morgunblaðið í morgun að margar af kröfum verkalýðsleiðtoga, sem sumar hverjar hljóði upp á 20-30%, eigi ekki heima í kjaraviðræðum.

Vilhjálmur Birgisson, formaður verkalýðsfélags Akraness, sagði í síðustu viku að grípa þurfi til rótækra aðgerða á borð við afnám verðtryggingar og lækkun vaxta ellegar sé frostavetur framundan.

Bjarni segir jafnframt að kjaraviðræður eigi að snúast nær eingöngu um kaup og kjör en ekki að setja sífelldar kröfugerðir á stjórnvöld. Hann segir að ríkisstjórnin hafi á stefnuskrá sinni að lækka skatta og taka til endurskoðunar samspil skatta og bótakerfa.

„Ég held að reynslan sýni að það er farsælast fyrir alla að fara inn í kjaralotu með með bjartsýni á góða niðurstöðu og sátt en ekki að efna til ófriðar fyrirfram," segir hann.

Viðskiptablaðið greindi frá því í gær að gerðardómur hafi verið skipaður í ljósmæðradeilunni. Magnús Pétursson, fyrrum ríkissáttarsemjari, fer fyrir dómnum en fyrsti fundur nýskipaðs dóms fer fram í dag.