Þjóðhagsráð kom saman í síðustu viku. Á fundinum var meðal annars fjallað um kjarasamninga. Í samantekt sem Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra lagði fyrir fundinn, kemur fram að þriðjungur ríkisstarfsmanna verði með lausa samninga á árinu. Þar kemur fram að launakostnaður vegna 900 ársverka félagsmanna í Læknafélagi Íslands hafi numið 19,5 milljörðum króna í fyrra. Í samantektinni kemur einnig fram að takmarkað svigrúm sé til launahækkana.

Samninganefndir Læknafélags Íslands og ríkisins hafa fundað þrisvar frá því í lok mars. Næsti fundur verður ekki haldinn fyrr en eftir tvær vikur eða miðvikudaginn 26. apríl. Þá verða einungis fjórir dagar í samningar lækna losni en það verður þann 30. apríl.

Á byrjunarstigi

Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, segir fyrsti fundurinn hafi verið örstuttur og næstu tveir hafi einnig verið frekar stuttir. Líkast til hafi þeir staðið yfir í klukkustund hvor.

„Þetta er allt í byrjunarstigi," segir hann. "Við höfum ekki tekið neinar langar lotur."

Spurður hvort einhver tilboð hafi verið rætt eða prósentuhækkun svarar Þorbjörn: „Ég vil ekki eiginlega ekki fara út í það nákvæmlega af því að við erum nú ekki búin að funda í marga klukkutíma. Ég veit ekki hvenær það fer að draga til tíðinda. Það er alveg heiðarlegt svar.

Það er enginn óróleiki í okkur og andinn á þessum fundum sem við höfum haldið verið góður. Ég myndi frekar segja að ég væri bjartsýnn en svartsýnn á framhaldið."

Nýjan samning sem fyrst

Síðast þegar læknar sömdu, sem var í janúar 2015, höfðu samningar þeirra verið lausir í um níu mánuði. Þorbjörn segist ekki eiga von að því að sú atburðarás endurtaki sig. Helst vilji hann klára samninga sem fyrst og best væri að gera það áður en sumarið gengur í garð.

„Við viljum ljúka þessu fyrr en seinna og fá nýjan samning sem fyrst. Það er ekkert markmið að draga þessar viðræður fram á haust enda losna þá aðrir samningar," segir hann og vísar til þess að í ágúst fellur gerðardómur 18 aðildarfélaga BHM úr gildi og í haust losna samningar kennara.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .