*

fimmtudagur, 19. apríl 2018
Erlent 7. júlí 2017 11:40

Lítið um frjálsar skattgreiðslur

Norðmenn virðast ekki vilja greiða skatt fremur en aðrir. Frjáls framlög Norðmanna til norska ríkissjóðsins undanfarnar tvær vikur nema aðeins um 135 þúsund íslenskra króna.

Ritstjórn
Siv Jensen, fjármálaráðherra Noregs.
epa

Frjáls framlög Norðmanna til norska ríkissjóðsins nema einungis um 11 þúsund norskra króna undanfarnar tvær vikur, sem jafngildir um 135 þúsund íslenskra króna. Um er að ræða „skatt“ sem fólk hefur val um að greiða og kallast á norsku frivillig skatt. Nettavisen greinir frá.

Mið-hægri ríkisstjórn Noregs, sem samanstendur af Íhaldsflokknum og Framfaraflokknum, kynnti þennan valkost um frjáls framlög þann 20. júní síðastliðinn. Valkosturinn um frjálsar skattgreiðslur var kynntur í kjölfar þess að stjórnarandstaðan í norska þinginu gagnrýndi ríkisstjórnina harðlega fyrir að lækka skatta og fjámagna aukin ríkisútgjöld með því að veita sér af höfuðstól olíusjóðs norska ríkisins.

Hugmyndin á bak við skattinn er að fólk, sem telur tekjuskattinn í Noregi vera of lágan, geti greitt það sem þeir vilja í skatt til norska ríkisins. Kostnaðurinn við innleiðingu þessa kerfis nam 50 þúsund norskra króna eða jafnvirði rúmlega 620 þúsund íslenskra króna.

Tekjur norska ríkissjóðsins af frjálsum skattgreiðslum undanfarnar tvær vikur verða að þykja lítilfjörlegar. Í Noregi búa um 5,3 milljónir manna og greiða Norðmenn einn hæsta tekjuskatt í heimi, eða 46,7%.

Stikkorð: Noregur skattar