Viðskiptablaðið greindi frá því á dögunum að vísbendingar væru um að skuldsett hlutabréfakaup hefðu farið vaxandi hér á landi að undanförnu. Miðað við fjárhagsupplýsingar bankanna og svör þeirra við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um málið hafa beinar lánveitingar þeirra til verðbréfakaupa ekki aukist að ráði undanfarið.

Landsbankinn er með lítið af útlánum til einstaklinga, eða félaga á þeirra vegum, með veði í hlutabréfum í skráðum félögum. Að sögn bankans eru þetta að mestu leyti aðilar sem hafa verið í slíkum viðskiptum lengi. „Heildarfjárhæðin hefur heldur lækkað en hækkað á undanförnum árum,“ segir í svari bankans við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.

Í svari Kviku við fyrirspurn Viðskiptablaðsins segir að skuldsett verðbréfaviðskipti séu almennt ekki í boði fyrir aðra en reynda fjárfesta. Kvika lánar aðeins til kaupa á auðseljanlegum verðbréfum og í hlutdeildarskírteinum einstakra sjóða.

Reglurnar ekki til

Að sögn Arion banka standa tveir kostir til boða þegar kemur að fjármögnun verð­ bréfaviðskipta, annars vegar lántöku og hins vegar framvirka samninga. Bankinn vill ekki upplýsa um upphæð lána af þessu tagi eða fjölda þeirra. Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka veitir bankinn almennt ekki lán til einstaklinga, né til eignarhaldsfélaga sem stofnuð eru af einstaklingum, til verð­ bréfakaupa. Bankinn segir að því séu ekki til reglur er varða slíkar lánveitingar, hvort heldur varðandi lánsfjárhæðir eða tryggingaþekju.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .