Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa lengi hvatt til þess að heimildir til notkunar flotvörpu við veiðar á síld, makríl og loðnu verði teknar til skoðunar.

Þetta kemur meðal annars fram í umsögn samtakanna sem birt er með lokaskýrslu starfshóps um heildarendurskoðun á regluverkinu.

Starfshópurinn tekur ekki sérstaka afstöðu til þessa máls, en í umsögnum bæði SFS og Hafrannsóknastofnunar kemur fram að mismunandi skoðanir hafi lengi verið uppi á notkun flotvörpu við uppsjávarveiðar, sérstaklega eigi það við um veiðar á sumargotssíld og loðnu, og þá gjarnan í samanburði við nótaveiðar.

„Því er t.d. haldið fram að trollið drepi miklu meira en kemur inn fyrir borðstokkinn, einkum vegna smugs eins og augljóst megi vera af ánetjun í hluta vörpunnar. Á hinn bóginn skili nótin nánast öllu sem hún lokar inni,“ segir Hafró.

„Annað, sem flotvörpunni hefur verið fundið til foráttu, er sú truflun sem stanslausar veiðar allan sólarhringinn hafi umfram nótaveiðar sem liggi oftast niðri nema um takmarkaðan tíma sólarhringsins.“

Hafró segir ennfremur að notkun þessara veiðarfæra fari illa saman þar sem torfur leysist upp begar búið er að toga í þeim og nótin því gangslaust veiðarfæri við þær aðstæður.

Kostir flotvörpunnar
„Flotvarpan hefur það hins vegar fram yfir nótina, að oft er hægt að fá góðan afla í flotvörpu þegar fiskur stendur of djúpt fyrir nót. Af þeirri ástæðu er auðveldara að halda uppi jöfnum afla eins og mikilvægt er þegar veiðar eru til vinnslu um borð eða í landi.“

Stofnunin segir ljóst að rannsóknir á áhrifum flotvörpu á afdrif og langvarandi hegðun fiska sé skammt á veg komin og fyrirséð að slíkar rannsóknir verði vart unnar á komandi árum. Þar af leiðandi verði ráðgjöf um það hvort veiðar með flotvörpu séu skaðlegar ekki veitt á grundvelli fyrirliggjandi vísindaþekkingar.

„Því miður er þekking okkar í dag því þess eðlis að erfitt er að leggja afgerandi mat á mögulega skaðsemi flotvörpuveiða en í grunninn má skipta mögulegum áhrifum í tvennt,“ segir Hafró í umsögn sinni.

Engar rannsóknir hafi til dæmis verið gerðar á áhrifum smugs á loðnu eða síld hérlendis og ljóst að slíkar rannsóknir yrðu mjög umfangsmiklar, ef hægt væri að framkvæma þær á annað borð.

„Engu að síður er ekki ástæða til að ætla annað en að eitthvað af síld sem sleppur úr flotvörpum hérlendis kunni að drepast af þess völdum þótt ekkert sé hægt að segja um stærðargráðu þess,“ segir Hafró.

„Atvinnugreinin hefur lengi hvatt til aukinna veiðarfærarannsókna og ávallt óskað eftir bestu fáanlegri vísindaráðgjöf í þessum efnum og telur slíka ráðgjöf nauðsynlega forsendu upplýstrar umræðu á þessu sviði,“ segir í umsögn SFS. „Við þær aðstæður sem nú eru uppi gegnir flotvarpan mikilvægu hlutverki við nýtingu umræddra fiskistofna og sköpun verðmæta.“

Lokaskýrslu skilað til ráðherra
Lokaskýrsla starfshóps um heildarendurskoðun á regluverki er varðar notkun veiðarfæra, veiðisvæði og verndunarsvæði á Íslandsmiðum er birt á vef stjórnarráðsins , ásamt tillögum starfshópsins til Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Starfshópurinn var skipaður haustið 2015 og sátu í honum fulltrúar frá Hafrannsóknastofnun, Fiskistofu og ráðuneytinu. Kallað var eftir athugasemdum og tillögum frá fjölda hagsmunaaðila en fjallað var um margvísleg álitamál, þar á meðal er varða endurskoðun sérveiðileyfa, kjörhæfni veiðarfæra, lokanir veiðisvæða og friðunarsvæði.

Tillögur starfshópsins lúta einkum að því að einfalda og skýra regluverkið, en nú þegar er búið að fækka reglugerðum verulega.