Óhætt er að segja að peningastefna Seðlabanka Íslands hafi töluvert verið í umræðunni síðustu misseri. Eftir nær engar breytingar á stjórntækjum bankans dró til tíðinda í byrjun þessa mánaðar þegar breytingar voru gerðar á bindingarskyldu erlends fjármagns, svokölluðum innflæðishöftum, en bindingarhlutfallið var lækkað úr 40% í 20%. Höfðu höftin verið óbreytt frá því að þau voru sett á í júní 2016. Kveða reglur um bindiskyldu nú á um að binda þarf 20% af nýju fjármagni sem kemur inn á skuldabréfamarkað eða í hávaxtainnistæður í eitt ár og það beri á sama tíma 0% vexti. Fimm dögum eftir að tilkynnt var um breytingar á innflæðishöftum hækkaði svo peningastefnunefnd Seðlabankans stýrivexti um 0,25 prósentustig í 4,5% en þeir höfðu verið óbreyttir í 13 mánuði. Þar að auki var þetta í fyrsta sinn sem stýrivextir voru hækkaðir í þrjú ár.

Misræmi í fjármagnsflæðinu

Líkt og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um virðist sem innflæðishöftin hafi orðið til þess að valda misræmi milli framboðs og eftirspurnar á fjármagnsmarkaði. Svo virðist sem breytingin á innflæðishöftunum hafi haft lítil áhrif enn sem komið er. Skýrist það meðal annars af því að fjárfestingaheimildir flestra erlendra fjárfestingasjóða koma í veg fyrir að þeir „megi“ fjárfesta á mörkuðum þar sem þeir þurfi að binda fjármagn sitt. Þar að auki er ávöxtunarkrafa á ríkisskuldabréf lítið breytt frá því að tilkynnt var um breytinguna auk þess sem gengi krónunnar hefur veikst lítillega frá 2. nóvember.

kvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA, segir að meðan innflæðishöftum sé viðhaldið sé Ísland að missa af erlendum fjárfestum sem vilji fjárfesta hér til lengri tíma. „Erlendir lífeyrissjóðir og tryggingafélög sem stunda alþjóðlega eignadreifingu eru lítið sem ekkert að hreyfa sig heldur eru þeir alla jafna fjárfestar til lengri tíma. Við erum því að missa marga af þeim erlendu fjárfestum sem við viljum fá þar sem þeir eru ekki með það að markmiði að vera hér til skamms tíma en innflæðishöftin koma í veg fyrir að þeir komi hingað. Þetta á líka við um stóra fjárfestingasjóði sem væru að setja lítinn hluta af eignasafni sínu inn í Ísland. Í staðinn erum við nær eingöngu með vogunarsjóði og aðra sérhæfða sjóði.

Blessunarlega hafa þessir sjóðir nær ekkert selt af sínum bréfum þrátt fyrir að ávöxtunin af þeirra stöðum hafi vægast sagt ekki verið góð síðustu misseri samhliða hækkandi ávöxtunarkröfu og veikari krónu. Þessir aðilar hafa einfaldlega mikla trú á Íslandi og þetta ætti einfaldlega að vera traustleikamerki. Það er hins vegar miður hvað við erum að missa af mikið af tækifærum til þess að fá hingað fjárfesta sem vilja vera hér til lengri tíma.“

Að sögn Agnars hafa innflæðishöftin skapað misræmi í fjármagnsflæði til og frá landinu. „Þrátt fyrir breytingar á bindiskyldunni erum við enn með fjármagnshöft sem búa til misræmi í fjármagnsflæðinu. Í þessu samhengi má nefna að Seðlabankinn vísaði sérstaklega í það í nýútkomnum peningamálum að hreint útflæði fjármagns hefði stuðlað að veikingu krónunnar. Til að byrja með þurfum við að fara að finna eitthvert jafnvægi í fjármagnsflæðinu þar sem það er tiltölulega óheft í báðar áttir svo að við vitum hver eðlileg staða á krónunni er. Það er hins vegar áhyggjuefni ef gengi krónunnar spilaði inn í síðustu vaxtaákvörðun. Að mínu mati væri það ekki tímabært að tala um að auka skammtímavaxtamun til þess að styðja við gengi krónunnar á meðan fjármagnsflæðið er í svona miklu ójafnvægi vegna innflæðishaftanna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .