*

fimmtudagur, 21. febrúar 2019
Innlent 12. febrúar 2019 16:18

Litlar hreyfingar en dágóð velta

Heildarvelta í Kauphöllinni nam 2,8 milljörðum í dag, en litlar hreyfingar voru á gangvirði flestra hlutabréfa.

Ritstjórn
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar.
Haraldur Guðjónsson

Heildarviðskipti með hlutabréf á aðalmarkaði Kauphallarinnar námu 2,8 milljörðum króna í dag, en litlar breytingar urðu á gangverði þeirra hlutabréfa sem þar eru skráð. Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,29%.

Nóg var um bæði hækkanir og lækkanir í viðskiptum dagsins. Mest hækkuðu bréf VÍS um 0,93% í litlum 2,2 milljóna króna viðskiptum, en þar á eftir komu bréf Heimavalla með 0,82% hækkun í 27 milljóna viðskiptum, og þar næst Arion banki með 0,50% hækkun í 5 milljóna viðskiptum.

Bréf Icelandair lækkuðu mest, um 1,70% í 121 milljóna króna viðskiptum. Festi lækkaði næst mest um 1,33% í 78 milljóna viðskiptum, og þar næst bréf TM með 0,72% lækkun í lítilli 8 milljóna veltu.

Eins og oft áður var yfirgnæfandi mest velta með bréf Marel, um 2,1 milljarðar, eða rúmar 4 af hverjum 5 krónum af heildarviðskiptum dagsins, en þrátt fyrir mikla veltu hreyfðist verð bréfanna þó sáralítið, um 0,11%. Næstmest velta var með bréf Reita, sem hækkuðu um 0,28% í 153 milljóna viðskiptum, og þar á eftir komu bréf Icelandair.