Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2,7% á milli febrúar og mars. Síðastliðna þrjá mánuði nemur hækkunin 7,1% og á einu ári hefur fasteignaverð á svæðinu hækkað um 20,9%. Þetta kemur fram í tölum sem Þjóðskrá Íslands birti í vikunni.Tölur Þjóðskrár sýna að sérbýli hefur hækkað um 20,2% á síðustu tólf mánuðum en íbúðir í fjölbýli um 21,3%. Eins og Greining Íslandsbanka hefur bent á hafa ekki verið ámóta hækkanir á húsnæðismarkaði síðan í útlánaþenslunni á árunum 2004 til 2005.  Á þeim árum voru veitt 100% íbúðalán.

Mikið hefur verið rætt um erfiðleika ungs fólks á fasteignamarkaði og því kannaði Viðskiptablaðið hvernig verð á litlum íbúðum í fjölbýli í Reykjavík hefur þróast. Skoðaðar voru 50 til 70 fermetra íbúðir og stuðst við upplýsingar úr nýrri verðsjá Þjóðskrár. Upplýsingarnar í verðsjánni byggja á þinglýstum kaupsamningum fasteigna.

Viðskiptablaðið bar meðalverð í Reykjavík og stærstu hverfum borgarinnar fyrstu þrjá mánuði ársins 2017 saman við meðalverð fyrstu þrjá mánuði ársins 2015. Til þess að sjá meðalverð í Háaleiti og Grafarholti þurfti reyndar að skoða meðalverð yfir lengra tímabil eða fimm mánuði. Það er vegna þess að verðsjáin birtir einungis upplýsingar um verð ef þremur eða fleiri samningum hefur verið þinglýst á því tímabili sem skoðað er.

57% í Hlíðunum

Meðalverð á 50 til 70 fermetra íbúðum í Reykjavík hefur hækkað um 38% á tveimur árum. Á fyrstu þremur mánuðum þessa árs er meðalfermetaverð á þessum litlu íbúðum tæplega 490  þúsund krónur en í byrjun árs 2015 var það ríflega 350 þúsund.

Samkvæmt þinglýstum samningum er meðalstærð íbúðanna 61 fermetri. Núna kostar slík íbúð 29,9 milljónir en fyrir tveimur árum kostaði hún 21,9. Fyrstu þrjá mánuðina 2017 var 147 kaupsamningum þinglýst sem er nánast það sama og á sama tímabili 2015 en þá var 146 samningum þinglýst.

Af þeim níu hverfum borgarinnar sem skoðuð voru er hækkunin mjög svipuð í sjö eða á bilinu 34 til 39% á tveimur árum. Tvö hverfi skera sig úr en það er annars vegar Hlíðahverfið, þar sem hækkunin nemur 57% og Grafarvogur þar sem hækkunin nemur 45%. Varast ber að draga of miklar ályktanir varðandi þróun íbúðaverðs í Hlíðum, þar sem einungis sex kaupsamningar liggja til grundvallar hvort ár. Svipaða sögu má segja um Grafarvog þar tölurnar byggja á 14 samningum hvort ár.

563 þúsund fermetrinn

Af 50 til 70 fermetra íbúðum er fermetrinn dýrastur í miðborginni, þar sem hann kostar 563 þúsund en þar á eftir kemur Vesturbærinn þar sem fermetraverðið er 544 þúsund. Ódýrasta fermetraverðið er í Breiðholti eða 413 þúsund.

Nokkuð misjafnt er eftir hverfum hver meðalstærð 50 til 70 fermetra íbúða er. Í eldri hverfum borgarinnar, eins og til dæmis miðborginni og Vesturbænum er meðalstærðin 59 til 60 fermetrar en í nýrri hverfum eins og til dæmis Grafarvogi er meðalstærðin 66 fermetrar.

Verð á litlum íbúðum
Verð á litlum íbúðum

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .