Idar Kreutzer, forstjóri norska tryggingafélagsins Storebrand, segir í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið í dag að hann líti á Kaupþing sem faglegan og góðan eiganda og neitar því að félagið sé að kaupa SPP til að verjast íslenskri yfirtöku. Aðalfundur Storebrand verður í lok október og er hans beðið með nokkurri eftirvæntingu.

Inntur eftir því hvort hann telji að Kaupþing hafi yfirhöfuð áhuga á því að yfirtaka Storebrand ítrekar hann í fyrstu að Kaupþing eigi 20 prósent í Storebrand og að Storebrand sé hlutdeildarfélag í Kaupþingi. Hann segir síðan að forsvarsmenn Kaupþings hafi berlega látið í ljós að þeir séu sáttir við þá stöðu. Þeir hafi sömuleiðis trú á Storebrand og veiti félaginu þar með tækifæri til þess að nýta sér vaxtamöguleika á markaðinum. "Þeir hafa berlega látið í ljós við okkur og markaðinn að þeir hafi engar fyrirætlanir um að yfirtaka Storebrand. Hafi þeir áhuga á því hafa þeir haft mörg tækifæri til að greina frá því," segir hann og bætir við: "Ég vil nota þetta tækifæri og segja að þegar Kaupþing keypti stóran hlut í Storebrand þekkti fólk Kaupþing en hafði þó ekki langa reynslu af því á norskum markaði. Kaupþing hefur nú verið stór hluthafi í Storebrand í bráðum ár og lítum við á Kaupþing sem faglegan og góðan eiganda."

Sjá ítarlegt viðtal við Kreutzer í Viðskiptablaðinu í dag.