Rannsókn Samkeppniseftirlitsins á Íslandspósti ætti að ljúka áður en frumvarp innanríkisráðherra um breytingar á lögum um póstþjónustu verður að lögum. Þetta segir Félag atvinnurekenda á vefsíðu sinni.

Í fyrrnefndu frumvarpi er lagt til að einkaréttur Íslandspósts á bréfasendingum verði afnuminn. Öll önnur aðildarríki EES hafa nú þegar gert þetta.

Félag atvinnurekenda fagnar þessu frumvarpi Ólafar Nordal innanríkisráðherra, en telur að nauðsynlegt sé að rannsókn Samkeppniseftirlitsins á meintum brotum Íslandspósts á samkeppnislögum verði lokið.

Rannsóknin skoðar meðal annars hvort Íslandspóstur hafi brotið gegn ákvæðum laga um bókhaldslegan aðskilnað einkaréttar og samkeppnisrekstrar með því að tekjur einkaréttarreksturs hafi verið látnar niðurgreiða samkeppnisrekstur.

Að mati FA er mikilvægt að botn sé fenginn í þetta mál, áður en einkarétturinn er afnuminn og Íslandspóstur seldur til einkaaðila. Ef þetta er ekki gert væri vitlaust gefið við einkavæðinguna og hætta er á að nýir eigendur fái afhent fyrirtæki með ósanngjarna meðgjöf á samkeppnismarkaði.