Eftir að Bretland ákvað að ganga úr Evrópusambandinu síðasta sumar hafa breskir bankar, líkt og mörg önnur fyrirtæki, þurft að bregðast við með einhverjum hætti. Nú hefur Lloyds bankinn ákveðið að höfuðstöðvarnar á meginlandi Evrópu verði í Berlín í Þýskalandi en á meðal annarra borga sem komu til greina voru Amsterdam og Dublin.

Lloyds bankinn er mjög stór og þegar litið er á markaðsvirði þá er bankinn á topp tíu listanum yfir verðmætustu fyrirtækin í Kauphöllinni í London (LSE).

Bankinn rekur nú þegar útibú í Berlín en því verður breytt í sjálfstætt dótturfyrirtæki og mun Lloyds sækja um tilskilin leyfi fyrir rekstrinum hjá þýska fjármálaeftirlitinu (BaFin) á næstu mánuðum.