Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, segir gagnrýni eins og þá sem Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, setti fram á kaupverðið á Vífilsstaðalandinu hljóta að byggja á því að samningurinn hafi ekki verið lesinn.

Kaupverðið nemur 558,6 milljónum króna auk 60% af lóðasöluverði, en þann 19. apríl síðastliðinn undirritaði Gunnar ásamt Benedikt Jóhannessyni fjármálaráðherra samning um kaup Garðabæjar á landi Vífilsstaða.

Um er að ræða alls 202,4 hektara landsvæði sem er í kringum Vífilsstaðaspítala, svæði austan Vífilsstaða, núverandi golfvallarsvæði, friðland í Svínahrauni og loks Rjúpnahæð á móts við Kjóavelli.

Ekki byggt á tæplega helmingi nýkeypts lands

„Áður en menn fara að reikna út eitthvert verð á hektara, verða þeir að vita hvernig verðin eru til fundin, en þarna eru stór svæði sem aldrei verður byggt á,“ segir Gunnar.

„Hátt í 64 hektarar í Svínahrauni eru til að mynda friðlýst land og svo eru einhverjir 42 hektarar þar sem golfvöllurinn er. Við erum ekki að fara að slátra honum, við ætlum að hafa golfvöllinn áfram.

Þetta er ekki fagleg gagnrýni og var ég töluvert hissa á Sigurði Inga að koma fram með hana án þess að hafa kynnt sér málið út í hörgul, því ég hef ekki þekkt hann af öðru.“

Um 40% nýrra íbúða í Garðabæ

Gunnar segir ekki hafa staðið á Garðabæ þegar komi að lóðaúthlutunum en honum finnst Reykjavíkurborg hafa einblínt um of á þéttingu byggðar.

„Það þarf að vera jafnvægi í þessu, en ef ég hefði verið við völd í Reykjavík hefði ég horft líka til úthverfanna því þótt það sé skynsamlegt að þétta, þarf líka að brjóta nýtt land þar sem ungt fólk eða aðrir hefðu getað fengið lóðir fyrir lítil parhús eða fjölbýlishús, þó að það væri lengra frá miðbænum,“ segir Gunnar sem segir stefnuna hafa tafið uppbyggingu og aukið kostnað við húsnæði.

„Skorturinn var fyrirséður og vorum við tilbúin með Urriðaholtið en staðreyndin er sú að það hafa einna helst verið Kópavogur, Garðabær og Mosfellsbær sem hafa verið með mestu fjölgunina undan farið. Á síðasta ári voru 40% af nýjum íbúðum sem voru að seljast á höfuðborgarsvæðinu í Garðabæ, en bæjarbúum fjölgaði um 4,2% milli ára svo við höfum svo sem staðið okkur í að koma til móts við þennan skort.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .