Leit að loðnu fyrir norðan og austan land hefur ekki borið þann árangur að mögulegt sé að ráðleggja veiði á þessari vertíð – skip eru við leit en menn orðnir svartsýnir á að loðna verði veidd þetta árið.

Gefi Hafrannsóknastofnun ekki út kvóta er ljóst að um verulegt högg er að ræða fyrir þjóðarbúið og fjölmargar fjölskyldur í sjávarplássum víða um land sem reiða sig á uppgrip á vertíðinni.

Í nýrri Hagsjá Landsbankans er farið yfir þær stærðir sem um ræðir og þar sem loðnan er næst mikilvægasta útflutningstegundin á eftir þorskinum munu áhrif þess verða allnokkur á landsframleiðslu og þar með á hagvöxt.

Útflutningsverðmæti loðnu nam 17,8 milljörðum króna í fyrra. Á þriðja ársfjórðungi síðasta árs nam landsframleiðsla síðustu fjögurra ársfjórðunga 2.766 milljörðum króna. Er því um að ræða um 0,6% af landsframleiðslu sem þjóðarbúið verður af, að óbreyttu.

Loðna veidd frá 1963

Í Hagsjá bankans segir ennfremur:

„Verði það niðurstaðan að ekki verði veidd nein loðna muni það sæta töluverðum tíðindum enda hafi loðna verið veidd hér við land samfleytt frá árinu 1963. Þó komið hafi vertíðir með mjög litlum veiðum hafi það aldrei farið svo að ekki hafi orðið nein veiði. Af slæmum vertíðum megi helst nefna árið 2009 þegar veidd voru 15.000 tonn og árið 1982 þegar veiðar námu einungis rúmlega 13.000 tonnum. Þegar best lét námu veiðar 1,3 milljón tonnum árið 1997 en segja megi að mestu veiðarnar hafi verið á tímabilinu 1996-2002 þegar meðalveiðar ársins námu 976 þúsund tonnum. Frá árinu 2002 hafa veiðar leitað niður á við og verið að meðaltali 190 þúsund tonn síðustu 5 ár."

Loðna lengi verið mikilvæg

Að sögn hagfræðideildar hefur loðna lengi verið einn af almikilvægustu fiskistofnum Íslands þegar kemur að útflutningsverðmæti. Allt frá árinu 2012 hafi útflutningsverðmæti loðnu verið það næstmesta á eftir þorskinum, að undanskildu árinu 2014, þegar makríll var með annað mesta útflutningsverðmætið á eftir þorski. Að meðaltali hafi útflutningsverðmæti loðnu á tímabilinu 2012-2018 verið 23,2 milljarðar króna á ári sem gerir um 9,4% af heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða á tímabilinu.