Kosningabaráttan í Bretlandi fyrir kosningarnar sem Theresa May, forsætisráðherra landsins boðaði óvænt 8. júní næstkomandi er komin á fullt.

Mismunandi hugmyndir um lausn á húsnæðisvanda

Húsnæðismál brenna á íbúum Bretlands, líkt og hér á landi, og lofar Íhaldsflokkur May að byggja nýja kynslóð af félagslegu húsnæði ef þeir sigra kosningarnar. Er ætlun flokksins að gera það auðveldara fyrir bæjarstjórnir að kaupa land sem er vannýtt og byggja þar leiguhúsnæði, sem þau gætu svo selt á almennum markaði eftir 10 til 15 ár.

Hagnaðurinn yrði svo settur á ný í félagslegt húsnæði, en íbúinn gengi fyrir við kaupin, að því er segir frá í frétt BBC um málið. Í dag eru um milljón manns á biðlistum eftir félagslegu húsnæði í Bretlandi. Hyggjast stjórnvöld semja við sveitarfélög um beinan stuðning við verkefnið, en jafnframt hafa stjórnvöld boðað aukin völd til sveitarfélaga til að setja þrýsting á verktakafyrirtæki til að byggja á landi í þeirra eigu.

Helsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Verkamannaflokkurinn, segir loforðin ekki nógu skýr, og skorta beinharðar tölur um húsnæðisuppbyggingu, en þeirra stefna er þvert á móti að lofa 100 þúsund nýjum félagslegum íbúðum á ári sem byggt yrði með fjármagni úr nýjum innviðasjóði.

Vilja ,,Hróa Hattar" skatt

Verkamannaflokkurinn, sem er undir stjórn Jeremy Corbyn, lofar því að hægt sé að afla ríkissjóði milljónum punda með nýjum skatti á fjármálaaðgerðir eins og millifærslur, að því er BBC greinir frá . Eru hugmyndirnar sambærilegar og eru í undirbúningi innan ESB, en Bretar hafa hingað til staðið gegn þeim vegna áhrifa þeirra á fjármálaiðnaðinn í landinu.

Segir flokkurinn að slíkur Hróa Hattar skattur myndi færa ríkinu allt að 26 milljarða punda, eða sem nemur 3.500 milljörðum íslenskra króna. Einnig hefur flokkurinn heitið hertum aðgerðum gegn því sem þeir kalla skattaundanskot, meðal annars með því að skilyrða þá sem hafa tekjur yfir 1 milljón punda, 135 milljónum króna, að birta skattaskýrslur sínar opinberlega.

Íhaldsflokkurinn hefur hins vegar sagt stefnuna vonlausa og bent á að hún muni geta valdið minni umsvifum og tilheyrandi atvinnuleysi í hinum mikilvæga fjármálageira og víðar.

Vilja greiða tæknimenntuðum hermönnum aukalega

Frjálslyndir Demókratar ætla sér að reyna að græða á því að vera eini flokkurinn sem vilji halda Bretlandi innan Evrópusambandsins, eða a.m.k. innan sameiginlega markaðarins, en einnig lofa þeir fjárhagslegum stuðningi fyrir verkfræði og tæknimenntaða nemendur sem ganga í breska herinn.

Myndi greiðsla sem næmi 10 þúsund pundum, eða 1,35 milljónum króna, til þeirra sem myndu vera í herþjónustu í fimm ár myndi draga úr skorti á tæknimenntuðu fólki í hernum.