Lög verða sett á yfirvinnubann flugumferðarstjóra, en frumvarp þess efnis var rætt á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.

Ef lögin verða samþykkt þarf Félag íslenskra flugumferðarstjóra að hætta öllum aðgerðum sínum strax, bæði yfirvinnu- og þjálfunarbanni.

Verður Alþingi kallað saman til þingfundar í dag klukkan 3, en fyrir aðeins nokkrum dögum var fundum þingsins frestað til 15. ágúst.

Yfirvinnubannið hefur verið í gildi frá 6. apríl síðastliðnum og hefur það raskað mjög flugi, meðal annars hafa orðið seinkanir á 1200 flugferðum Icelandair og haft áhrif á 200 þúsund farþega þess.