*

mánudagur, 22. apríl 2019
Innlent 20. desember 2017 17:14

Lög um opinber fjármál ófullnægjandi

SA segja afgang af ríkisfjármálum sem nemur 1,3% landsframleiðslu lítinn og að setja þurfi útgjöldum ríkisins skorður.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Samtök atvinnulífsins benda á að áætlaður 35 milljarða afgangur ríkisfjármála á næsta ári er einungis 1,3% af landsframleiðslu sem sé lítill afgangur miðað við bæði þanda tekjustofna og afganginn sem skilað var á síðasta hagvaxtarskeiði.

Þetta kemur fram í umsögn samtakanna um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár, en samtökin ítreka að mikilvægt sé að stjórnvöld búi í haginn nú enda taki allar uppsveiflur enda. Vísbendingar eru þess efnis að það hægi hratt á vexti hagkerfisins. Verði hagvöxtur minni en áætlanir gera ráð fyrir gæti afkoma ríkissjóðs hæglega breyst í halla. Lítið má því út af bregða segja samtökin.

Benda samtökin á að þótt gert sé ráð fyrir hóflegum útgjaldavexti í núverandi frumvarpi þá sé mikilvægt að hafa í huga að það sé regla fremur en undantekning að útgjöld aukist frá frumvarpi til fjárlaga og svo umframkeyrslu frá fjárlögum til ríkisreiknings. Líklegt er því að útgjöld verði töluvert meiri en lagt er upp með í frumvarpinu segja samtökin í samantekt við umsögn sína. 

Ríkið eykur þenslu fjórða árið í röð

Jafnframt benda samtökin á að nú séu ríkisfjármálin að auka þenslu í hagkerfinu fjórða árið í röð, og að ný lög um opinber fjárlög nái ekki að hemja aukningu ríkisútgjalda frá fjárlagafrumvarpi til áætlaðra útgjalda fyrir yfirstandandi ár. Því brýna samtökin mikilvægi þess að sett sé útgjaldaregla, eða miðað sé við hagsveifluleiðrétta afkomu í stað núgildandi afkomureglu.

Loks benda samtökin á að flestar skattahækkanir frá því árið 2008 standi enn óhreyfðar, tryggingargjald hafi lítið lækkað þrátt fyrir lítið atvinnuleysi og enn séu frekari skattahækkanir boðaðar. 

Fjármagnstekjur skattlagðar meira en laun

„Fjármagnstekjur eru nú þegar skattlagðar meira en launagreiðslur. Boðuð hækkun fjármagnstekjuskatts mun því auka þann mun,“ segja samtökin sem segja eðlilegra að skattstofninn hefði verið endurskoðaður samfara boðaðri skattahækkun.

„Síðustu ár hefur verið forgangsraðað til heilbrigðis- og menntamála, en útgjöld til þessara málaflokka hafa vaxið verulega umfram önnur útgjöld ríkisins. Enn er þó krafist enn meiri framlaga til þeirra. Að mati SA er vandamálið ekki skortur á fjármagni, heldur forgangsröðun og nýting þeirra miklu fjármuna sem úr er að spila nú þegar.“

Að mati Samtaka atvinnulífsins eru fimm mikilvæg atriði sem stjórnvöld ættu að hafa hugfast:

  1. Búa þarf í haginn því uppsveiflur taka enda. Mikilvægt er að auka afgang af rekstri ríkissjóðs meðan tekjustofnar eru sterkir. Við munum búa að þeirri ráðdeild næst þegar harðnar á dalnum.
  2. Tryggja þarf aðhald á uppgangstímum. Snúa þarf af þeirri braut að auka útgjöld á uppgangstímum. Ríkisfjármálastefna á að milda hagsveifluna, ekki ýkja hana.
  3. Forgangsröðun ríkisútgjalda er nauðsynleg. Útgjöld ríkisins eru mikil í sögulegum og alþjóðlegum samanburði. Finna þarf leiðir til að nýta betur skattfé landsmanna. Skorti fé til þarfra verkefna þarf að sækja slíka fjármuni til annarra málaflokka.
  4. Skapa þarf rými til skattalækkana. Ísland er háskattaland. Á meðan ríkisútgjöld vaxa á hverju ári skapast ekki svigrúm til að lækka skatta.
  5. Mikilvægt er að halda áfram að greiða niður skuldir. Skuldir ríkissjóðs eru enn of háar og vaxtakostnaður íþyngjandi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim