Eigendur Árvakurs útgáfufélags Morgunblaðsins, hafa lagt félaginu til 200 milljónir í aukið hlutafé að því er Fréttablaðið greinir frá. Á árinu 2017 tapaði félagið 284 milljónum króna, en árið 2016 nam tapið 50 milljónum króna. Félagið gefur út Morgunblaðið, mbl.is, Andrés Önd auk útvarpsstöðvarinnar K100 sem keypt var undir lok árs 2016.

Sigurbjörn Magnússon, stjórnarformaður Þórsmerkur, sem á 99% í Árvakri, segir hlutafjáraukninguna hafa komið frá fyrri hluthöfum og því sé hluthafahópurinn óbreyttur.

„Félagið er í nýjum verkefnum og ýmsu sem þarf að standa straum af eins og gengur,“ segir Sigurbjörn en félagið segir tapið stafa af harðnandi samkeppni við Ríkisútvarpið á auglýsingamarkaði og að launakostnaður hafi hækkað ört.

Jafnframt hafi uppbygging nýrrar starfsemi kostað töluvert fé, en eins og áður segir jókst tapreksturinn um 234 milljónir á milli ára, fyrsta heila starfsár útvarpsstöðvar félagsins.

Stærsti eigandi félagsins er Gubjörg Matthíasdóttir, sem er stærsti eigandi Ísfélags Vestmannaeyja, með 26% hlut, en Eyþór Arnalds athafnamaður og oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur er næst stærstur með 23%. Aðrir hluthafar eru m.a. Kaupfélag Skagfirðinga og Skinney-Þinganes.