Hlutafé útivistarvörumerkisins Cintamani ehf. var aukið um 300 milljónir króna á síðasta ári. Þar af voru 110 milljónir króna greiddar með reiðufé og 189 milljónir króna greiddar með því að breyta lánum frá hluthöfum í hlutafé. Því til viðbótar lögðu hluthafarnir fram 50 milljónir króna í formi breytanlegs skuldabréfaláns. Cintamani er að meirihluta í eigu Kristins Más Gunnarssonar fjárfestis og að minnihluta í eigu Frumtaks slhf.

Hlutafjáraukningin var að mestu nýtt til lækkunar á tapi fyrri ára. Cintamani tapaði 126,5 milljónum króna árið 2017 en hagnaðist um 2,8 milljónir króna árið 2016. Í skýrslu stjórnar með ársreikningnum sem dagsettur er 22. ágúst 2018 segir að félagið hafi unnið að hönnun nýrrar vörulínu frá árinu 2015 sem ekki komi í verslanir fyrr en rétt fyrir jólin 2018.