*

fimmtudagur, 19. júlí 2018
Innlent 13. september 2017 14:56

Logi vill upptöku eignarskatts

Stjórnaandstöðuleiðtogar segja fjárlagafrumvarp metnaðarlaust því ekki sé verið að sækja fram með aukinni samneyslu.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Leiðtogar stjórnarandstöðuflokkanna eru flestir sammála um að fjárlagafrumvarpið hafi ekki komið þeim á óvart, enda í takt við fjármálaáætlunina.

Skattahækkunin komi verst niður á landsbyggðinni

Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins segir þó að það komi sér á óvart að fjármálaráðherra hunsi tillögur um komugjöld í stað hækkunar virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna, enda komi hún verst niður á ferðaþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins.

„Þess vegna lögðum við það til [...] og munum gera það aftur í haust að auknu fé verði varið í innviðauppbyggingu þeirra svæða sem ekki hafa notið sama hagvaxtar og þéttbýlustu kjarnar landsins,“ segir Sigurður Ingi.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær hefur Benedikt Jóhannesson sagt að komugjöld séu óæskilegri því hækki einnig gjöld á innanlandsflug. Þrátt fyrir að haft væri eftir honum þar að skattahækkunin á ferðaþjónustuna taki gildi strax á næsta ári kom í ljós í kynningu á fjárlagafrumvarpinu að hún verði samhliða lækkun efra þrepsins í byrjun árs 2019.

Vill upptöku eignaskatts

Logi Már Einarsson formaður Samfylkingarinnar segist orðlaus yfir því sem hann kallar metnaðarleysi stjórnarflokkanna í garð mennta- og velferðarmála. „Mér finnst það vonbrigði að ekki sé meira fé varið í sjúkraþjónustu og skammsýnt að gefa ekki öldruðum tækifæri til að vinna og finna sér lífsfyllingu,“ segir Logi og vísar þar í frítekjumark sem hækka á í áföngum.

„Ég vil sjá einhvers konar útfærslu á auðlegðarskatti og breytingar á skattkerfinu.“ Logi segir að flokkurinn muni leggja fram breytingar við fjárlagafrumvarpið og játar því að hann eigi þá við einhvers konar eignaskatt.

Sveltistefna að draga samneysluna saman

Birgitta Jónsdóttir, sem nýtekin er við sem þingflokksformaður Pírata að nýju, lét ekki ná í sig, en Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna segir að verið sé að lækka bætur og ekki sé auka framlög til heilbrigðismála jafnmikið og kjósendir kalli eftir.

„Hér er verið að lögfesta það sem ég hef kosið að kalla sveltistefnu,“ segir Katrín. „Það er ekki verið að sækja fram í neinum málaflokkum. Hlutur samneyslunnar er að dragast saman sem hlutfall af landsframleiðslu og það sést víða í fjárlagafrumvarpinu.“