Lögmennirnir Gestur Jónsson og Ragnar H. Hall segja að Sérstakur saksóknari láti hjá líða að fjalla um þá gagnrýni sem þeir hafa komið með á embættið og málsmeðferð Al-Thani málsins. Í grein sem þeir rita í Fréttablaðið í dag segja að í stað þess að svara henni efnislega kjósi hann að fullyrða að ástæður ákvörðunar okkar séu aðrar en við höfum tilgreint. Hann ræðst að persónu okkar með því að halda því fram að við segjum ósatt um ástæður ákvörðunarinnar. Okkur gangi það eitt til að tefja málið.

Vísa þeir til þeirrar ákvörðunar sinnar um að segja sig frá málinu sem verjendur Sigurðar Einarssonar og Ólafs Ólafssonar. Eftir nokkuð stapp milli héraðsdóms og lögmannanna féllst dómari loks á það að leysa þá undan verjendaskyldum í gær og skipaði sakborningunum nýja verjendur. Aðalmeðferð, sem átti að hefjast í gær, hefur verið frestað um óákveðinn tíma.

Í greininni í Fréttablaðinu ítreka þeir Gestur og Ragnar fyrri gagnrýni á rannsókn málsins og meðferð þess fyrir dómi. Fullyrða þeir m.a. að embætti sérstaks saksóknara hafi ekki virt trúnaðarsamband verjanda og sakbornings með því að hlera og vista samtöl verjanda og sakbornings í málinu. Að embættið hefði gefið alþjóðalögreglunni Interpol rangar upplýsingar um sakborning í málinu í því skyni að eftir honum yrði lýst sem alþjóðlegum glæpamanni. Og að sérstakur saksóknari berðist af hörku gegn því að verjendur fengju almennt að kynna sér niðurstöður rannsóknaraðgerða í málinu en teldi rétt að verjendur sætti sig við að hann handvelji þau gögn út úr rannsókninni sem hann sjálfur telur að eigi erindi inn í málið.