Á rúmu ári hafa hagar lokað eða tilkynnt um lokun á sjö fataverslunum í aðdraganda komu H&M til landsins. Mörg fyrirtæki vilja komast í verslunarrými sem næst væntanlegri staðsetningu sænsku fataverslunarkeðjunnar í Kringlunni og Smáralind.

Eru dæmi um að fyrirtæki sem eru þegar í verslunarmiðstöðvunum vilji komast nær þeim stað þar sem H&M verður staðsett að því er segir í Fréttablaðinu í dag.

Jafnframt er sagt frá því að Hagar hyggist loka tískuvöruversluninni Dorothy Perkins í Smáralind í vor sem er á sama tíma og Topshop verður lokað, en þess utan hefur fyrirtækið lagt eða tilkynnt um lokun verslana undir vörumerkjum Debenhams, Evans og Warehouse.

Forsvarsmenn Smáralindar segjast vera í viðræðum við önnur erlend fataverslunarfyrirtæki um pláss í verslunarmiðstöðinni.

Árni Sv. Mathiesen, stjórnarformaður Next, tekur undir að koma H&M og aukin netverslun kalli á ákveðnar breytingar, en fyrirtækið vill til að mynda minnka við sig í Kringlunni.

„Þetta kallar á það hjá okkur, eins og við höfum gert, að menn skoði bæði innkaupsverðið og hvernig þeir geta hagrætt í rekstri og boðið lægra verð," segir Árni.