„Ég hef heyrt af fyrirtækjum sem eru með vörur í bandarískum verslunum sem hefur verið lokað á og nú erum við að kanna réttmæti þess,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í samtali við mbl.is um ákvörðun Reykjavíkurborgar þess efnis að leggja viðskiptabann á Ísrael.

Ragheiður segist vita til þess að leitað hafi verið til sendiráðs Íslands í Bandaríkjunum vegna málsins og hún hafi áhyggjur. „Þess vegna ætlum við að fara strax í það að meta áhrif þessarar ákvörðunar Reykjavíkurborgar, ákvörðunar sem mér finnst í besta falli undarleg, og ég er ekki alveg sannfærð um að menn hafi gert sér grein fyrir afleiðingunum þegar þetta var sett af stað,“ segir hún jafnframt.

Þá segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra að borist hafi gríðarlega margar fyrirspurnir til ráðuneytisins um stefnu Íslands varðandi utanríkismál. „Við höfum vísað þessum fyrirspurnum eins mikið og við getum til Reykjavíkurborgar því auðvitað er það hún sem þarf að standa frammi fyrir þessari samþykkt sem var gerð. En það er ljóst að það eru einstaklingar og fyrirtæki að hunsa íslenskar vörur og hunsa Ísland vegna þessarar ákvörðunar.“

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkurborgar, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að kannski hefði mátt útfæra málið betur. Það hefði skipt máli að þarna væri um að ræða lokatillögu Bjarkar Vilhelmsdóttur , borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, í borgarstjórn.