Tesla tilkynnti í síðustu viku að til stæði að loka flestum verslunum fyrirtækisins, og sala myndi þess í stað fara fram á netinu. Samkvæmt heimildum Bloomberg fréttaveitunnar kom tilkynningin mörgum starfsmönnum í opna skjöldu, en fyrirtækið hefur verið að bæta við sig verslunum nýverið.

Tilkynnt var um stefnubreytinguna á vef rafbílaframleiðandans á fimmtudag, en samkvæmt téðum heimildarmönnum – sem ekki vildu koma fram undir nafni – höfðu margir sölumenn fyrirtækisins ekkert heyrt um aðgerðirnar fyrr en þá.

Breytingin er sögð vera hugarfóstur Sanjay Shah, sem ráðinn var til Tesla frá Amazon síðasta sumar sem framkvæmdastjóri orkumála, en valdsvið hans hefur verið víkkað töluvert síðan þá.

Allt þar til tilkynningin var birt á fimmtudag hafði stefna fyrirtækisins verið að bæta við verslunum. 27 nýjar verslanir og þjónustumiðstöðvar voru opnaðar á síðasta ársfjórðungi. Félagið stofnaði meðal annars dótturfélag hér á landi fyrir stuttu, og samkvæmt talsmanni þess í Noregi stendur til að tilkynna frekari starfsemi hér á landi á næstunni.

Stefnubreytingin kom því ekki aðeins starfsmönnum í opna skjöldu, heldur einnig mörgum fjárfestum, en einn þeirra óttast að aðgerðirnar séu til marks um dræma sölu og erfiða fjárhagsstöðu félagsins.