Það er skylda stjórnvalda að fylgjast vel með íbúðamarkaðnum og bregðast við ef bóluáhrifa verður vart. Þetta kemur fram í skýrslu ráðgjafafyrirtækisins Reykjavík Economics, sem kynnt var á dögunum og ber titilinn: Íbúðamarkaðurinn: Endurreisn eða bóla?

„Íbúðamarkaðurinn hefur náð sér að fullu og nýbyggingar eru byrjaðar að seljast á ný,“ segir í skýrslunni. „Byggingariðnaðurinn hefur einnig rétt úr kútnum og við sjáum fram á eðlilega nýsmíði íbúða. Megináhættan liggur reyndar í fjármagnshöftunum því ef þeim er lyft er líklegt að gengi krónunnar félli með tilheyrandi verðbólguskoti. Einnig vekur mikil verðhækkun íbúðarhúsnæðis áhyggjur en líklega má rekja hana til aukinnar eftirspurnar eftir löngum verðtryggðum lánum.“

Í skýrslunni segir að íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hafi hækkað um 6,8% að nafnvirði á síðasta ári og 2,6% að raunvirði.

„Markaðurinn hefur tekið vel við sér í byrjun árs 2014 en frá mars 2013 til mars 2014 hefur verð hækkað um 8,7% að raungildi og hefur 12 mánaða raunhækkun ekki verið hærri frá því í október 2007 þegar íbúðamarkaðurinn hækkaði um 11,7% að raungildi. Það var á hátindi húsnæðisbólunnar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .