Brasilíska snyrtivörufyrirtækið Natura hefur fest kaup á breska snyrtivörufyrirtækinu Body Shop og nemur kaupverðið einum milljarði evra. Franska fyrirtækið L'Oreal hefur verið eigandi Body Shop síðustu 11 ár en hefur nú selt fyrirtækið til nýrra eigenda. Þetta kemur fram í frétt BBC.

L'Oreal keypti Body Shop árið 2006 á 940 milljónir evra en fjárfestingin hefur ekki náð að skila þeim árangri sem til var ætlast.

Body Shop var stofnað í Bretlandi árið 1976 af Anitu Roddick. Fyrirtækið var brautryðjandi í framleiðslu á snyrtivörum sem innihéldu einungis náttúruleg efni og höfðu ekki verið prófuð á dýrum. Body Shop er ein stærsta snyrtivörukeðja í heiminum með um 3.000 verslanir í 66 löndum.

Natura er stærsti framleiðandi snyrtivara í Brasilíu. Fyrirtækið selur vörur sínar í sjö löndum Suður-Ameríku auk Frakklands. Samkvæmt tilkynningu frá félaginu eru kaupin á Body Shop hluti af stefnu fyrirtækisins um að bæta stöðu umhverfisins og samfélagsins í heild.