Lovísa Anna Finnbjörnsdóttir tók nýverið við sem sviðsstjóri Fjármálaráðgjafar Deloitte. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Deloitte.

„Lovísa er með víðtæka reynslu á sviði fjármálaráðgjafar og hefur stýrt fjölbreyttum verkefnum fyrir mörg af stærstu fyrirtækjum á íslenskum markaði, m.a. á sviði áreiðanleikakannana, kaup- og söluráðgjafar, verðmatsþjónustu og líkanasmíði.

Lovísa hefur jafnframt unnið að alþjóðlegum ráðgjafarverkefnum, fyrir íslenska og erlenda viðskiptavini, en hún starfaði um tíma á skrifstofu Deloitte í Kaupmannahöfn,“ segir í tilkynningunni.

Lovísa hefur lokið M.Sc. gráðu í fjármálahagfræði frá Háskóla Íslands, en hún er jafnframt með M.Acc. gráðu í reikningsskilum og endurskoðun og B.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá sama skóla.

„Við erum afskaplega ánægð með að fá Lovísu í stjórnendateymi Deloitte. Hún er ung og metnaðarfull, með mikilvæga reynslu meðal annars úr alþjóðlegum verkefnum, hefur ávallt hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi og er með skýra sýn um aukinn vöxt í ráðgjafarstarfsemi Deloitte“ segir Sigurður Páll Hauksson, forstjóri Deloitte.