Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) gerir ekki kauptilboð í Arion banka. Þetta staðfestir Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins í viðtali við Viðskiptamoggann .

LSR var meðal fjögurra lífeyrissjóða sem leiddu viðræður nær allra lífeyrissjóða á landinu um að kaupa mögulega hlut Kaupþings í Arion banka. Eins og sakir standa þá á Kaupþing 87% hlut í bankanum og ríkissjóður 13%.

Endurmeta stöðu sína

Þeir lífeyrissjóðir sem leiddu viðræðurnar ásamt Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins voru; Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Gildi lífeyrissjóður og Frjálsi lífeyrissjóðurinn.

Í grein Viðskiptamoggans er einnig tekið fram að fleiri lífeyrissjóðir endurmeti nú stöðu sína og að ákvörðun LSR hafi ekki aukið samstöðu um þessi mögulegu kaup.

Leiddi ekki til niðurstöðu

Haft er eftir Hauki Hafsteinssyni, framkvæmdastjóra LSR, að um síðustu áramót hafi LSR haft frumkvæði að viðræðum við Kaupþing um möguleg kaup á stórum hluta bankans. Þær hafi hins vegar ekki leitt til haldbærrar niðurstöðu.

Vegna breyttra aðstæðna taldi því LSR hið rétta í stöðunni að draga úr hinum formlegu viðræðum. Þó tekur hann fram að þó að LSR hafi ákveðið að draga sig úr viðræðunum á þessu stigi málsins útilokar hann ekki þann möguleika að LSR verði á einhverjum tímapunkti eigandi að hlutafé í bankanum.

18% af lífeyriskerfinu

Heildareignir Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins eru tæp 18% af öllu íslenska lífeyriskerfinu og eignir hans námu tæpum 583 milljörðum króna. Því er líklegt að þessi ákvörðun dragi eitthvað úr slagkrafti viðræðnanna um kaupin á hlut í Arion.