*

föstudagur, 22. júní 2018
Innlent 4. september 2017 14:08

LSR fer yfir 10% í HB Granda

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) á nú 10,95% eignarhlut í HB Granda.

Pétur Gunnarsson
Haraldur Guðjónsson

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) á nú 10,95% eignarhlut í HB Granda. Skiptist hluturinn á milli A-deildar, B-deildar, séreignardeilda lífeyrissjóðsins sem og lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Eins og Viðskiptablaðið greindi fyrst frá síðastliðinn föstudag seldi Hampiðjan, sem áður var sjötti stærsti hluthafinn í HB Granda, alla eignarhluti sína í HB Granda á sölugenginu 32 krónur á hlut. Salan var liður í því að fjármagna kaup á færeyska félaginu Von. 

Viðskiptablaðið hefur áður gert hlutabréfaverð HB Granda að umfjöllunarefni sínu en bent var á að þrátt fyrir að félagið hafi upplifað nokkuð róstusama tíma upp á síðkastið. Þrátt fyrir það hefur hlutabréfaverð félagsins lítið breyst. Kaupgengi hvers bréfs í HB Granda er nú 31,55 krónur og hefur gengi hlutabréfa félagsins lækkað um 2,15% á síðastliðnum mánuði.  

Mikil endurnýjun hefur verið á flota félagsins og hefur það ráðist í talsverðar hagræðingaraðgerðar, meðal annars með því að láta af botnfiskvinnslu félagsins á Akranesi. Ólíklegt er að þetta muni hafa ýkja mikil áhrif á hlutabréfaverð félagsins, en hluthafahópurinn er nokkuð þröngur og greiningaraðilar gera ráð fyrir því að hagræðingaraðgerðir skili sér í góðri afkomu.

Fjórir stærstu hluthafar í HB Granda eru eftirfarandi: Vogun hf. með 33,51% eignarhlut, Lífeyrissjóður verslunarmanna með 13,11% eignarhlut, LSR með 10,95% eignarhlut og Gildi - lífeyrissjóður með 9,06% eignarhlut. Þetta er miðað við stöðu sem sýnd á vefsíðu HB Granda auk upplýsinga um aukinn eignarhlut LSR.