Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) skilaði í vikunni uppgjöri síðasta árs. Þar kemur fram að nafnávöxtun eigna sjóðsins nam 8,7% á árinu 2015 sem svarar til 6,5% hreinnar raun­ ávöxtunar. Tekjur af fjárfestingarstarfsemi á árinu 2015 voru 46,8 milljarðar króna og heildareignir LSR voru 582,9 milljarðar króna í árslok 2015.

Undanfarin þrjú ár hafa eignir LSR aukist um 146 milljarða króna. Það má að stærstum hluta rekja til ávöxtunar sjóðsins því á sama tíma hafa tekjur af fjárfestingum numið 142,6 milljörðum króna.

Í árslok 2015 voru 49,8% af eignum sjóðsins í skuldabréfum, þar af 30,5% í skuldabréfum með ríkisábyrgð, 15,2% í innlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum, 29,8% í erlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum og 5,2% í innlánum. Eignir í erlendum gjaldmiðlum voru 31% í árslok. Haukur Hafsteinsson er framkvæmdastjóri LSR.