„Við erum með opið allt árið um kring. Vetrartraffíkin er að aukast á Íslandi og þá kannski sérstaklega í gistingu utan Reykjavíkur þar sem ferðamenn sækja nú enn meira í vetrarupplifun og norðurljósin en áður,“ segir Sigurlaug Sverrisdóttir, einn eigenda ION Luxury Adventure Hótel en hún segir markhópinn sem sækir Ísland heim fara sífellt stækkandi.

iON hótel
iON hótel

Sigurlaug er mjög ánægð með viðtökurnar sem opnunin hefur fengið:

„Það er óhætt að segja að við séum ánægð með upphafið en við erum þegar komin með mjög góða nýtingu á hótelinu fyrstu mánuðina sem lofar góðu. Við höfum fundið fyrir miklum áhuga frá Bretlandi en nú þegar hafa birst greinar um hótelið í The Sunday Times, Condé Nast Traveller og The Guardian. Einnig hafa The Independent og Wallpaper sýnt hótelinu áhuga og vilja birta greinar um okkur nú í febrúar.“

Spurð hvort hótelið eigi sér einhverja fyrirmynd úti í heimi segir hún ekki svo vera: „Nei það má eiginlega segja að þessi hugmyndafræði og markaðsstefna sé gott samspil eigenda/frumkvöðla, arkitekta, markaðsfræðinga og ráðgjafa. Hugmyndir og hönnun hafa í rauninni þróast nokkuð í ferlinu en grunnstefnan um umhverfisvæna stefnu með íslenska hönnun og hugvit í fyrirrúmi hefur verið gegnumgangandi allt ferlið. Þannig er hægt að finna skemmtilega tengingu allt frá veitingum að lífrænum bómul í rúmfötum og handklæðum.“

Og ætli gæludýrin megi koma með í rómantíska lúxushelgi?

„Persónulega myndi ég gjarnan vilja bjóða þau velkomin líkt og mörg hótel í Evrópu gera en það er alltaf erfitt að eiga við ofnæmi frá heimilisdýrum. Við erum með gott gerði og brunn innan girðingar rétt fyrir neðan hótelið þar sem hægt er að geyma hesta svo hótelgestirnir geta mætt ríðandi ef þeir vilja,“ segir Sigurlaug.

iON hótel
iON hótel