Í tjöldum undir stjörnubjörtum himni í hitabeltislandinu Kenía kviknaði hugmynd meðal stofnenda Igloo Camp um að bjóða upp á hágæðatjaldhótel á Íslandi. Um er að ræða tjöld sem bjóða upp á öll þægindi og þá þjónustu sem vænta má af hótelgistingu, í miðri náttúruparadís Íslands.

Veðurfar og önnur skilyrði eru þó töluvert frábrugðin því sem gerist í Kenía og því þurfti hópurinn á bak við Igloo Camp að finna lausnir sem hentuðu Íslandi en það tókst þó á endanum.

„Við hugsuðum að þetta væri spennandi fyrir Ísland og aðrar norðlægar slóðir upp á upplifun og erum búin að finna lausn á því. Við erum búin að finna tjald sem hægt er að bjóða fólki að gista í allan ársins hring. Það er upphitað, þolir íslenskt veðurfar og er með öllum þægindum eins og í hótelherbergi,“ segir Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, einn af stofnendum Igloo Camp.

„Á sama tíma getum við boðið fólki upp á þessa miklu nánd við náttúruna og upplifað allt það sem við Íslendingar þekkjum við að gista í tjaldi. Við munum geta boðið fólki að upplifa íslenska sumarnótt og fuglasöng. Svo finnst okkur ótrúlega spennandi að bjóða upp á þetta að vetri til og bjóða fólki upp á að vera í næði úti í náttúrunni að vetri en geta svo auðveldlega stigið út úr tjaldinu, upplifað norðurljós og vetrarbirtu, stjörnuhimin og allt þetta sem er svo einstakt við Ísland,“ segir Ásta.

Svo virðist sem hugmyndin um hágæða tjaldhótel í íslenskri náttúru sé að fá undirtektir því Igloo Camp er eitt af tíu verkefnum til þess að vera valið í ferðaþjónustuhraðal Icelandic Startups. Ásta og hinir stofnendurnir eru enda líka með áform um uppbyggingu sem einskorðast ekki við eina staðsetningu og ekki endilega við eitt land.

„Planið er að byggja upp keðju af tjaldhótelum á Íslandi og jafnvel á öðrum norðlægum slóðum. Fyrsta staðsetningin er á Suðurlandi og stefnan er að opna í ár,“ segir Ásta en á hverju tjaldhóteli verður þyrping tjalda. Igloo Camp sækir nafn sitt í útlit tjaldanna en um er að ræða hvít kúlutjöld sem líkjast nokkuð snjóhúsum. Þau eru um 30 fermetrar að stærð og lofthæðin allt að 3,2 metrar. Innan þeirra verður svo hægt að finna öll helstu þægindi á borð við sturtu, klósett og uppábúin rúm.