Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar, fjallaði um lýðræðisvæðingu lífeyrissjóðanna á Alþingi fyrir skömmu. Benti hann á að heildareignir sjóðanna væru ríflega 3.500 milljarðar króna og þeir væru því komnir með ráðandi stöðu í íslensku atvinnulífi.

Óli Björn spurði Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra nokkurra spurninga. Meðal annars hverja hann teldi vera kosti og galla þess að lögfesta frelsi launafólks til að velja sér lífeyrissjóð, sem og með hvaða hætti væri hægt að auka áhrif sjóðfélaga á stefnu og fjárfestingar lífeyrissjóðanna?

Varðandi spurninguna um að lögleiða frelsi launafólks til að velja sér lífeyrissjóð svaraði Benedikt: „Almennt talað er ég fylgjandi frelsi og ég tel að það hafi gildi í sjálfu sér að hafa frelsi til að velja. Það gefur fólki tækifæri til að sækjast eftir því að vera í sjóðum sem eru því að skapi af einhverjum ástæðum, til dæmis vegna fjárfestingarstefnu, réttinda eða góðrar þjónustu.

Eftir samræmingu lífeyrisréttinda á vinnumarkaði ættu þeir sem nú starfa hjá hinu opinbera, sem ekki hafa val um lífeyrissjóð, að taka því frelsi fagnandi. Gæta yrði að því að lífeyrissjóðir stæðu öllum opnir þannig að ekki yrði um andval að ræða þannig að ekki yrði hægt að hafna þeim sem sjóðfélögum sem sinna áhættumiklum störfum."

Hvað varðar spurninguna um að auka áhrif sjóðfélaga á stefnu og fjárfestingar svaraði ráðherra:  „Það er erfitt að fullyrða um hvaða eitt fyrirkomulag er betra en annað. Í dag eru nú þegar starfandi sjóðir bæði með sjóðfélagalýðræði og fulltrúalýðræði og kannski enn einir sjóðir sem skipað er beint í af atvinnurekendum og verkalýðsfélögum. Allir kostirnir hafa bæði kosti og galla.

Gallinn við sjóðfélagalýðræði er að það er annaðhvort í gegnum netkosningu eða mætingu á ársfundi þar sem tiltölulega fáir koma að ákvörðunum um stjórn og breytingar á samþykktum. Þá má líka geta þess að þeim sjóðum þar sem sjóðfélagar kusu stjórn beint vegnaði ekki betur en öðrum í hruninu, hvort sem þar var beint samband á milli eða ekki."

Þröng mörk

Benedikt sagði að starfsgreinasjóðir væru með fulltrúalýðræði. „Að minnsta kosti þegar kemur að vali á fulltrúum launþega. Þar hafa sjóðfélagar bein áhrif á stjórnir stéttarfélaga sinna og þannig á stjórn lífeyrissjóða.

Að lokum má nefna að aðkoma atvinnurekenda að stjórnum lífeyrissjóða hefur verið gagnrýnd. Rökin fyrir aðkomu þeirra hafa alla tíð verið þau að atvinnurekendur hafi hag af því að sjóðfélagarnir njóti góðra réttinda. Aðkoma atvinnurekenda hefur verið mikilsverður þáttur í sátt um lífeyriskerfið. Ég set aftur á móti spurningarmerki við það að sjóðfélagar móti fjárfestingarstefnuna nema þá innan þröngra marka."

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Lífeyrir & tryggingar, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .