Lýður Guðmundsson, bróðir Ágústs Guðmundssonar forstjóra Bakkavarar, hyggst stíga til hliðar sem stjórnarformaður fyrirtækisins að því er Fréttablaðið greinir frá. Bræðurnir eru stofnendur fyrirtækisins en þeir hafa verið að ná aftur undirtökunum í fyrirtækinu eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá .

Mun Simon Burke sem verið hefur í stjórninni frá því í desember taka við, en hann er fyrrverandi forstjóri leikfangaverslunarinnar Hamleys. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá á sínum tíma stefnir félagið að skráningu á breska hlutabréfamarkaðinn en bresk lög gera ráð fyrir óháðum stjórnarformanni.

Er jafnvel talið að skráningin, sem stór fjármálafyrirtæki eins og Morgan Stanley, HSBC, Barclays, Citigroup, Rabobank og Peel Hunt hafa unnið að undanfarna mánuði, verði í næstu viku.