Lyft, sem er stærsti samkeppnisaðili Uber, hefur nú formlega skrifað undir samstarfssamning við Waymo, dótturfélag Google. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Waymo sérhæfir sig í lausnum fyrir sjálfkeyrandi bíla og hefur staðið í málaferlum við Uber vegna tæknilausna fyrir sjálfkeyrandi bíla. Samstarfssamningur Lyft og Waymo mun því varla bæta samskipti fyrirtækjanna.

General Motors er einnig hluthafi í Lyft. Saman stefna fyrirtækin að því að koma sjálfkeyrandi fjöldaframleiddum rafbílum á göturnar.

Í síðasta mánuði tók Lyft við 600 milljónum dala í hlutafjáraukningu. Fyrirtækið er nú metið á ríflega 7,5 milljarða dala.