Þetta er meistaranám í alhliða stjórnun, með áherslu á verkefnastjórnun. Í náminu er einblínt á verkefni og fyrirtæki sem vilja undirbúa og framkvæma verkefni. Þá er einnig mikið komið inn á hlutverk leiðtogans og það að geta unnið með teymi," segir Helgi Þór Ingason, prófessor og forstöðumaður MPM meistaranáms í verkefnastjórnun við Háskólann í Reykjavík. Helgi kynnti námið fyrir áhugasömum á meistaranámsviku Háskólans í Reykjavík, sem fór fram á dögunum.

Helgi segir að til að geta unnið verkefni í teymi þurfi fólk að kunna að vinna með fólki sem hugsar öðruvísi en það sjálft. „Það sem ræður úrslitum í verkefnum er geta fengið manneskju til að starfa með öðru fólki, ekki síður en að geta sinnt útreikningum og öðru slíku. Það er einnig lögð áhersla á þetta hlutlæga - sem er áþreifanlegt og mælanlegt, auk fyrrnefnds huglægs þáttar - sem eru tilfinningarnar og aðrir þættir sem erfitt er að festa fingur á."

Verkefni unnin alls staðar í samfélaginu

Að sögn Helga er verið að vinna verkefni í öllum fyrirtækjum og stofnunum í samfélaginu. Nemendur í náminu komi víða að úr samfélaginu og það sé alls staðar þörf fyrir þessa þekkingu og færni. Þá sýni rannsóknir að það séu sífellt fleiri fyrirtæki sem nýti sér verkefnastjórnun.

„Í árdaga verkefnastjórnunar var þetta svolítið tæknifag sem snerist mest um mannvirki og annað slíkt. En í dag eru nemendur í faginu með allskyns bakgrunn og til dæmis eru nemendur mínir í náminu með bakgrunn í viðskiptafræði, hjúkrunarfræði, heimspeki og fleiri fögum. Það má því segja að fulltrúar allra fyrirtækja og atvinnugreina sé okkar markhópur."

Til þess að eiga möguleika á að komast í námið þurfa umsækjendur að vera með grunnháskólagráðu eða ígildi hennar og þar að auki þurfa umsækjendur að hafa að minnsta kosti þriggja ára starfsreynslu úr atvinnulífinu.

„Í skólastofunni erum við mikið að spegla reynslu. Því viljum við síður að fólk komi í námið beint eftir að hafa lokið grunngráðu, því uppbygging námsins er þannig að fólk þarf að hafa reynslu úr atvinnulífinu," segir Helgi.

Vega hvor annan upp

Helgi býr yfir mikilli verkefnastjórnunarreynslu og hefur hann gefið út nokkurn fjölda af bókum um fræðin. Hann hefur meðal annars gefið út nokkrar bækur ásamt samstarfsfélaga sínum Hauki Inga Jónassyni, lektor og stjórnarformanni MPM námsins, en samstarf þeirra hefur spannað tæpa tvo áratugi.

„Fyrsta námsbókin okkar á ensku fjallar um siðfræði í samhengi verkefnastjórnunar. Bókin fékk fínar viðtökur og hefur verið dreift víða. Við erum með mjög ólíkan bakgrunn, ég er í grunninn verkfræðingur og hann guðfræðingur. Því blandast vel saman hjá okkur þessir hlutlægu og huglægu þættir. Þetta er í raun hugmyndafræðin á bak við okkar samstarf. Allt okkar samstarf byggir á því að við komum með ólíka sýn og framlag að borðinu og búum svo til eitthvað sem hefur sterka skírskotun inn í atvinnulífið," segir Helgi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .