Þingflokkur Verkamannaflokksins breska hefur nú lýst vantrausti sínu á leiðtoga þingflokksins, Jeremy Corbyn. Kosið var um vantraust í dag og hann tapaði kosningunni með 40 atkvæðum á móti 172. Fjórir sátu hjá. Það þýðir að 81% þingflokksins kaus gegn honum. Tveir þingmenn flokksins sem sitja í skuggaráðuneyti Corbyn hafa þá þegar sagt af sér - þær Lyn Brown og Pat Glass. Frá þessu segir hjá The Telegraph .

Ekki er öllu lokið enn sem komið er. Corbyn verður enn leiðtogi flokksins, en hann þarf ekki að taka mark á niðurstöðum vantraustskosninganna fyrr en þeir sem á móti honum standa krefjast þess að kosið verði á ný um hver það verður sem fær að gegna formennsku innan flokksins. Heimildir herma að þingmaður flokksins, Angela Eagle, muni bjóða sig fram í formannssætið gegn Corbyn.

Corbyn hefur brugðist við og svarar á þann veg að hann muni ekki segja af sér sjálfviljugur. Hann var kjörinn formaður fyrir níu mánuðum síðan og segist ekki munu svíkja þá sem kusu sig. „Ég var lýðræðislega kjörinn formaður flokksins, með nýja tegund stjórnmála að stafni. 60% kjósenda kusu mig sem formann og ég mun ekki svíkja þetta fólk með því að stíga til hliðar,” sagði Corbyn. „Vantraustskosning þingmannanna styðst ekki við stjórnarskránna og er því ekki gild.”