Landssamtök íslenskra stúdenta lýsa yfir vonbrigðum með frumvarp til fjárlaga árið 2019. Samtökin segja að markmið ríkisstjórnarinnar um að fjárframlög til háskólastigsins nái meðaltali OECD-ríkjanna og Norðurlandanna vera orðin tóm. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu samtakanna, en tilkynninguna má sjá í heild hér að neðan.

Yfirlýsing Landssamtaka íslenskra stúdenta vegna frumvarps til fjárlaga ársins 2019

Ríkisstjórnin hefur haldið á lofti áformum um að fjárframlög til háskólastigsins nái meðaltali OECD-ríkjanna árið 2020 og svo Norðurlandanna árið 2025 með stigvaxandi fjármögnun eins og segir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Það endurspeglast hins vegar ekki í fjármálaáætlun þar sem enn vantar u.þ.b. 900 milljónir árið 2023 til að ná meðaltali OECD-ríkjanna. Frumvarp til fjárlaga ársins 2019 bætir svo ekki úr skák þar sem ekki einu sinni markmið fjármálaáætlunar nást. Enn á ný eru markmið ríkisstjórnar að ná meðaltali OECD-ríkjanna og Norðurlandanna orðin tóm.

Raunhækkun á rekstrarframlögum til háskólanna er 152,6 milljónir króna eða tæplega hálft prósent sem samræmist ekki markmiðum í fjármálaáætlun um eflingu í nýliðun kennara og bætta aðstöðu í háskólum um allt land. Betur má ef duga skal og því nauðsynlegt að sitjandi ríkistjórn standi við markmið um innspýtingu í háskólakerfið.

Hækkun á fjárframlögum til Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) er einungis í samræmi við breyttar úthlutunarreglur og breytt verðlag og er þess vegna ekki hægt að lesa sem hækkun í kjölfar áætlana mennta- og menningarmálaráðherra um innleiðingu styrkjakerfis að norrænni fyrirmynd. Þó er óhætt að fullyrða að sú 280 milljóna króna aukning sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu myndi þar að auki ekki fullnægja þeirri fjárþörf sem innleiðing á slíku kerfi hefur í för með sér. En ef gert væri ráð fyrir að öll sú hækkun sem um ræðir yrði nýtt í innleiðingu á styrkjakerfi væri upphæð styrks fyrir hvern lánþega u.þ.b. 22 þúsund krónur á ársgrundvelli sem verður að teljast þýðingarlaus styrkur. Það er því ljóst að hækkun á fjárframlögum til LÍN er grunnforsenda þess að hægt sé að innleiða styrkjakerfi ef ekki á að draga verulega úr hlutverki sjóðsins sem félagslegs jöfnunarsjóðs. LÍS telja óforsvaranlegt að ætla að fjármagna styrkinn með t.d. hækkun vaxta á námslánum.

Öflugt háskólakerfi er helsta forsenda öflugs samfélags þar sem jafnrétti, nýsköpun og menning eru í forgrunni. Háskólar leggja grunn að þekkingarstarfsemi og gott aðgengi að menntun stuðlar að aukinni þátttöku einstaklinga í samfélaginu og bættri lýðheilsu. Auk þess sem hærra menntunarstig þjóða eykur hagvöxt og hefur efnahagslega ávinninga fyrir samfélög. Ef íslenska háskólakerfið á að standast kröfur og væntingar og vera samkeppnishæft á alþjóðlegum vettvangi er nauðsynlegt að samsvarandi fjármagn fylgi. Það er brýnt að meðaltali OECD-ríkjanna í fjárframlögum til háskólastigsins á hvern stúdent verði náð en Ísland hefur verið undir því meðaltali síðastliðin ár. Íslenskt háskólakerfi á með réttu að standa jafnfætis nágrönnum sínum á Norðurlöndum en þar teljumst við frekar eftirbátar.

Frumvarp til fjárlaga ársins 2019 eru mikil vonbrigði og er það krafa LÍS að úr sé bætt í samræmi við loforð og markmið ríkisstjórnarinnar og að háskólakerfið fái þá fjárveitingu sem þörf er á.