Lýsing hf. sem stofnað var árið 1986 hefur breytt um nafn eftir þrjátíu ára starfsemi og starfar nú undir nafninu Lykill fjármögnun hf. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma keypti Lýsing hf. árið 2014 eignaleigusvið MP banka, sem bar heitið Lykill, en það tók til starfa árið 2012.

Lykill hefur boðið bílasamninga, bílalán og kaupleigusamninga til fjármögnunar atvinnutækja, og hefur það starfað undir því nafni óbreytt frá því Lýsing tók við félaginu. Nú hefur félagið hins vegar hætt notkun vörumerkisins Lýsing og tekið alfarið upp nafn Lykils í allri starfseminni.