Skiptum er nú lokið í fasteignafélaginu Landic Property. Félagið var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur 28. janúar 2010. Skiptum á búinu lauk 16. júní síðastliðinn. Lýstar kröfur í búið námu tæpum 315 milljörðum króna.

Samþykktar almennar kröfur í búið eru 116,5 milljarðar króna. Úthlutun úr búinu fór fram í þrennu lagi. Í júní 2013 var úthlutað alls  ríflega milljarði af fé búsins og í júní 2014 var úthlutað hlut þrotabúsins í fasteignafélaginu Reitum. Til úthlutunar koma nú eignir búsins að fjárhæð 285 milljóna króna.

Í frétt Ríkisútvarpsins um málið er rifjað upp að Landic Property var á sínum tíma kjölfestufjárfestir í FL Group, en félagið varð til með sameiningu Stoða, Atlas Ejendomme og Keops í október 2007. Á þeim tíma voru heildareignir félagsins metnar á um 376 milljarða króna. Félagið átti um 500 fasteignir í Norðurlöndunum, þar á meðal Kringluna og Hilton hótelið á Íslandi og svo svo Illum og Magasin du Nord í Danmörku.

Í frétt Viðskiptablaðsins frá árinu 2010 kemur fram að stjórnendur móðurfélags Landic Property hf., höfðu í samvinnu við kröfuhafa unnið að því að verja íslenska starfsemi félagsins og losa um erlendar eignir og veðskuldir. Á því ári breytti félagið um nafn og starfaði í kjölfarið undir nafninu Reitir fasteignafélag.