Nýjustu iPhone símarnir eru komnir til landsins og af því tilefni opnaði Macland verslun sína á miðnætti í nótt.

Hörður Ágústsson framkvæmdastjóri og stofnandi verslunarinnar var ánægður með viðbrögðin en sérstaklega hve Apple fyrirtækið virðist vera farið að taka eftir Íslandi betur en áður.

Einungis viku á eftir stóru löndunum

„Það sem er skemmtilegt við þegar Apple gefur út nýja vöru, er að það myndast alltaf ákveðin stemmning fyrir þessu. Ég hef ekki séð þetta sama fyrir aðra framleiðendur og aðrar vörur. Það var mjög gaman í nótt þegar fólk mætti klukkan 12, annað hvort að sækja þá síma sem það hafði pantað, fólk kom alls staðar að og á öllum aldri að sækja símana sína sem það er með í forpöntun, eða bara að kaupa þá sem út af stóðu,“ segir Hörður sem segir Apple senda símana mun fyrr til landsins nú en áður, en í minna magni.

„Við vorum að fá þá töluvert eftir öðrum löndum. Nú erum við komin í svokallaða aðra lotu, sem er eftir þessari fyrstu lotu sem innihalda þessi stærstu lönd, Bretland, Bandaríkin og þessi stóru lönd sem eru aðalmarkaðir Apple. Nú er Ísland komið þarna allt í einu í sama flokk og Danmörk, Svíþjóð, Spánn, Ítalía og þannig lönd. Sem er virkilega gaman að sjá. Við erum í raun einungis viku á eftir stóru löndunum.“

Nokkrir símar enn til

Hörður segir næstu sendingu vera væntanlega í næstu viku, en þeir fá ekki að vita hvenær hún kemur fyrr en daginn áður, og ekki einu sinni hvað hún inniheldur.

„Eins og stundum gerist þegar við fáum svona sendingu, þá fáum við kannski bara 20 eintök af silfurlituðum iPhone, en það voru kannski bara 12 búnir að panta þann lit. Alla slíka síma sem voru þannig umfram settum við í sölu í nótt og eigum við nokkur stykki eftir enn,“ segir Hörður, en hann segir Apple gera þetta svona til að búa til væntingar og viðhalda stemningu.

„Þetta er miklu minna í sniðum heldur en áður, við erum að fá símana mun fyrr heldur en við vorum að fá þá áður. Við vorum alltaf að fá þá í lok október. Þetta var ekki jafn stórt og fyrir 2 árum síðan þegar við seldum einhverja 120 síma eftir miðnætti.“

Snarpari, með betri rafhlöðu og myndavél

Hörður keypti sjálfur sinn síma síðustu helgi erlendis og er hann búinn að nota hann í viku og segir hann símann vera töluvert snarpari en iPhone 6s sem hann var með áður.

„Við vorum að gera nýjar auglýsingar þar sem við vorum að gera grín að þessu. Þetta er besti, hraðasti og flottasti iPhone sem hefur verið gerður, og það er líka eins gott því þetta er nýjasti iPhone síminn,“ segir Hörður.

„Hann kemur ánægjulega á óvart á nokkrum stöðum. Ég finn mun á rafhlöðunni, eitthvað sem allir kalla eftir og finnst mikilvægt. Myndavélin er alveg stórkostleg og svo er það sem mér finnst mest spennandi en ég veit að mörgum finnst mjög boring, það er að hann er vatnsþolnari en áður.“

Vatnsþolinn sem kemur í veg fyrir harmleiki

Apple virðist hafa svarað því kalli að gera símana vatnsþolnari, líkt og Samsung eigendur hafa geta treyst á síðustu tvö árin.

„Ég er virkilega ánægður með það, okkur í Macland þótti það svo sorglegt þegar fólk er að koma með eldri síma sem það hefur misst í poll eða eitthvað. Það er oft bara mikill harmleikur, gögn tapast, til dæmis myndir af börnum og svoleiðis,“ segir Hörður.

„Nú er hann orðinn það vatnsþolinn að þú getur raunverulega sett hann ofan í klósettið og tekið hann upp aftur, ef það er vilji fyrir því.“