Emmanuel Macron frambjóðandi En Marche! mun að öllum líkindum bera sigurorð í fyrstu umferð frönsku forsetakosninganna, samkvæmt útgönguspám. Marine Le Pen fylgir þó fast á hæla Macron og munu þau mætast í annarri umferð kosninganna. Kosið verður eftir tvær vikur. Þetta kemur fram í frétt AFP.

Macron hlýtur líklega í kringum 23 til 24 prósent atkvæða en Le Pen um 21,6 til 23 prósent. „Frakkar hafa lýst yfir vilja sínum fyrir breytingum,“ er haft eftir Macron í fréttinni. Hann telur að brotið sé blað í sögu franskri stjórnmálasögu. Ef Macron sigrar kosningarnar yrði hann yngsti forseti í sögu Frakklands, einungis 40 að aldri. Hægrimaðurinn Francois Fillon, frambjóðandi Lýðveldisflokksins hefur lýst yfir stuðningi við Macron.

Le Pen og Macron eru á öndverðum meiði í stjórnmálaskoðunum, þrátt fyrir að vera bæði hálfgerðir utangarðsmenn í franskri pólitík, þ.e. hvorugt þeirra er frambjóðandi tveggja stærstu flokkanna, sem venjulega hafa barist um forsetatitilinn. Bæði frambjóðendur Sósíalistaflokksins og Lýðveldisflokksins hafa verið slegnir út úr kosningunum.

Le Pen fer fyrir flokknum National Front, sem leggur áherslu á „frönsk gildi“ og er andvígur Evrópusambandinu. Macron stofnaði flokkinn En Marche! fyrir um 12 mánuðum og er hann miðju-hægrimaður sem er í forsvari fyrir þá sem vilja aukna hnattvæðingu og áframhaldandi veru Frakklands í Evrópusambandinu.

Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum er Macron sigurstranglegri í annarri umferð forsetakosninganna. Hann nýtur 62 prósenta fylgi en Le Pen 38 prósenta fylgi.